Sunday, June 13, 2010
Útþrákelkni
Mig langar ógurlega að heimsækja Norfolk-eyju sem liggur í Kyrrahafi, austur af Ástralíu. Á myndum hef ég séð að þar er fallegt. Samfélag eyjaskeggja held ég líka að sé dálítið áhugavert. Að nokkrum hluta eru þeir afkomendur afkomenda uppreisnarseggja af Bounty, sem vegna plássleysis hröktust af smáeynni Pitcairn sem liggur talsvert austar. Eftirlegusauðirnir á Pitcairn-eyju telja einhverja fimm tugi, eða þar um bil, og skyldleikaræktun hlýtur að vera dálítið vandamál á þeim bænum - því skeri. Pitcairn komst í fréttirnar á Englandi fyrir nokkru - en eyjan er fyrrum bresk nýlenda og enn breskt yfirráðasvæði - þegar upp komst um allskuggalegt barnaníð nokkurra eyjaskeggja. Ég þekki ekkert til barnaníðs á Norfolk-eyju. Á eynni, sem formlega er hluti af Ástralíu en nýtur talsverðrar sjálfstjórnar, búa talsvert fleiri en á Pitcairn eða rúmlega tvö þúsund manns. Sjálfsagt eru einhverjir þeirra skítalabbar, skítalabbaeyjaskeggjar, eins og gengur. Ég veit eiginlega ekki hví Norfolk-eyja er mér svo hugleikin en það er hún virkilega. Mig grunar þó sterklega að þegar ég loks kemst til eyjarinnar verði ég fyrir vonbrigðum. Við því get ég ósköp lítið gert annað en það kannske að reyna að stilla væntingum mínum í hóf. Það er vonlaust dæmi. Nú hef ég eiginlega eyðilagt fyrir mér ferð sem ég mögulega fer aldrei í. Þetta er ömurlegt ferðalag.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment