Saturday, June 12, 2010
Götumyndbrot
Óþægi-Einar í næsta húsi er byrjaður að rífa kjaft. Fram til þessa hefur hann bara horfið, svo familían hefur staðið úti í dyrum og spangólað á hann tímunum saman. Eða þannig. Auðvitað hefur hann ekkert horfið raunverulega, bara legið undir trampólíni í einum garði eða klifrað upp í tré í öðrum. En nú altént er hann farinn að svara fyrir sig, - "Ég nenn'ekkert að fara! Af hverju þarf ég?! Þett'er ömurlegt!" Bráðum verður hann unglingur og fullkomlega óþolandi að öllu leyti, eða flestu. Mér finnst dálítið erfitt að hugsa til þess. Þó eru að líkindum allnokkur ár í það, hann er kornungur. Blessaður anginn. Manni skilst annars að unglingsárin færist sífellt neðar, bisnessinn í Ameríku sjái til þess - "tween" er þar viðurkennt hugtak, svona hérumbil, og varðar mikilvægan markhóp sem framleiðendur herja á til að selja drasl sem er hvorki né, ekki fullorðins og ekki ekki, ekki töff og ekki kjútsí, ekki alveg og hérumbil nærri. Pönkaragallabuxur til að vera í á trampólíninu, aksjón-menn á leið á fund, rokkmúsík um ást á skólabókasafninu. Við étum svona vitleysu upp eftir Ameríkönum. Mér er ekki vel við að tala um þjóðir sem hitt eða þetta, en ég get talað um samfélög, og okkar er vesælt. Hér eru of mikil fífl til að finna upp á bráðsniðugri dellu eins og Ameríkanarnir og of miklir vesalingar til að leiða hana hjá sér. Auglýsingastofurnar hér eru þó engir aukvisar, frekar en annars staðar. Heill Játvarði Bernays! Og enn vill Einar ekki inn, ekki með í heimsókn til ömmu, ekki fara úr fótboltaskónum, ekki skila ausunni, ekki láta bróður sinn í friði og ekki drífa sig af stað. Ó, Einar, svo orginal. Óþægi-Einar er uppáhalds manneskjan mín sem ég er ekki skyldur(þvílíkur nepótisti!), er ekki músíkant, ekki rithöfundur og ekki nærfatamódel.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment