Tuesday, March 22, 2011

Um betrun mannsins

Ég er breyskur maður, hef ýmsa galla, en tel mér það þó til tekna að vera meðvitaður um ófullkomleika minn og stöðugt - segjum oft - leitandi leiða til að betra mig. Þannig reyni ég að hugleiða reglulega stöðu mína í heiminum, hlutverk mitt og hvernig ég ræki það, og afstöðu mína til fólks í kringum mig og þess til mín. Ég leita ráða um það hvernig ég get bætt mig bæði hjá fólki sem stendur mér nærri, í formi persónulegra samræðna, og hjá öðrum sem standa mér fjær - fræðimönnum, heimspekingum (í víðasta skilningi þess orð, hjá öllum þeim sem ég tel að hafi brýna speki um veröldina fram að færa), skáldum og öðrum listamönnum. Betrunarviðleitni mín er einkum tvíþætt - betrun andans og efnisins (og hverfist síðarnefndi þátturinn einkum um líffræðileg, lífefnafræðileg og lífeðlisfræðileg mál sem ég mun ekki rekja hér, að svo stöddu altént). Nú upp á síðkastið hef ég gluggað í bókina Mannasiði, eftir Jón Jacobsson. Hún er vissulega nokkuð komin til ára sinna - er gefin út árið 1920 - en mér þóttu líkur á því að í henni væri engu að síður að finna ýmislegt sem héldi gildi sínu. Sígildar samskiptareglur ef svo má segja. Vissulega er margt í bókinni sem flestum kynni að þykja næsta hlægilegt í dag, og skyldi engum koma á óvart sem hefur þó ekki nema allra grófustu hugmyndir um inntak almennrar félagsfræði. Til dæmis hlýtur grein um hárhirðu að teljast fórnarlamb framgangs tíma og tækni, eða hefur nokkur maður kölnarvötn sín í dropaglösum núorðið? Hitt er þó eins víst að sá grunur minn reyndist á rökum reistur að í bókinni væri að finna gullkorn, sem ég trúi ekki að missi praktískt gildi sitt nokkurn tímann, og eiga erindi við fólk á öllum aldri og úr öllum stigum þjóðfélagsins. Svo sem þetta:
38. Hvernig skal koma fram í heimsóknum?
Menn taki fyrst af sér skóhlífar og yfirhafnir (konur einnig skóhlífar, og leggi frá sér votar regnhlífar og fari úr yfirhöfnum, þegar vont er veður), karlar gangi með hattinn í vinstri hendinni inn í móttökuherbergið, heilsi síðan fyrst húsmóðurinni og því næst húsráðanda. Eftir það er boðið er til sætis, setjist menn hispurslaust í þann sess, sem þeim er boðinn, með hattinn í hendinni, hafi þeim ekki verið boðið að leggja hann frá sér. Konur haldi að sjálfsögðu hönzkum á höndum sér, hatti með blæju á höfðinu, en lyfti blæjunni frá andlitinu. Komi nýir gestir, skal staðið upp með húsbónda og húsfreyju og ekki aftur sezt niður að af lokinni kynningu, nema manni sé aftur boðið til sætis. Verði dráttur á því, skal kveðja húsráðendur og halda af stað. Um viðræður er áður talað.

Mannasiðir e. Jón Jacobsson, bls. 41

Wednesday, March 16, 2011

Fyrir börnin

Börn eru yfirleitt hálfvitar og nærri því alltaf aumingjar. Þess vegna þurfum við - ég og þú og allir - að vera góð við börnin. Ekki of góð þó. Big K.R.I.T. fyrir börnin.

Wednesday, March 9, 2011

Sena 1

- Er ekki allt í lagi þarna?- er kallað,- Halló!
Maður í gráum ullarfrakka, blautur hérumbil upp að hnjám, lítur um öxl, réttir treglega upp hönd og kallar til baka:
- Jú, allt í góðu.
- Hvað ertu að gera þarna?- er aftur kallað, eins og af (ströngum en sanngjörnum) barnaskólakennara.
- Ég- mér sýndist ég sjá sel,- kallar sá frakkaklæddi til baka.
- Sel!? Það eru engir selir hér.
- Jú, mér sýndist ég sjá sel.
- Hvað ætlaðirðu að gera við sel?- er nú spurt ofan af ströndinni.
Maðurinn í gráa frakkanum, sem líka er á svörtum mokkasínum snýr orðlaust við og staulast klunnalega með skvettum og fyrirgangi upp úr vatninu og áfram til baka yfir sleipt fjörugrjótið og þarann.
- Ég sá sel,- segir hann og réttir alskeggjuðum manni höndina.
Sá skeggjaði réttir hönd á móti og horfir þegjandi í augu þess frakkalædda.
- Hér eru engir selir,- segir hann loks, og sá frakkaklæddi sér að útskýringar hans virka ekki sannfærandi á viðmælandann. Skeggjaða.
- Þetta var sjálfsagt grjót sem glampaði á, ljós frá húsunum, og þari. Blautt.
- Já- segir sá skeggjaði, enn vantrúaður- sjálfsagt. Hér sjáum við aldrei seli.
- Jæja, ég er hundblautur í fæturnar, helvíti er svalt að verða.
- Já, það er ekkert baðveður,- segir sá skeggjaði þurrlega.
Með þeim orðum kveðjast þeir. Sá frakkaklæddi gengur af stað eftir fjörunni, rétt um það bil sem hún mætir bakgörðum húsanna við götuna fyrir ofan. Honum er ekki ýkja kalt - ekki nándar nærri nógu kalt - en hann skammast sín, lítur um öxl og sér skeggjaða manninn hverfa inn um bakdyr húss handan garðsins sem hann kallaði úr, og hann sér líka að út um stóran glugga á annarri hæð hússins fylgist kona með honum. Hún stendur nálægt glerinu með krosslagða handleggi. Hann hugsar með sér að hún sé eflaust kona þess skeggjaða, og að jafnvel hafi hún komið auga á vesalings hann úti í voginum og krafist þess af manni sínum að hann færi út og fengi ræfilinn ofan af því. Að nokkru leyti af eðlilegri samhygð, eða aumingjagæsku, en óneitanlega meðvituð um að því að maður dræpist að heita má í bakgarðinum hjá henni kæmi til með að fylgja talsvert vesen. Samtöl við lögreglu eða aðra rannsóknaraðila, umgangur þeirra og mögulega einhver umferð aðstandenda mannsins. Það þarf að stjaka við honum, ef hann er truflaður við þessa tilraun sína hér gefst hann upp og hugsar sinn gang, leitar sér kannske aðstoðar - það er allt sem þarf, að stjaka við honum, eiga við hann orð. Eða hvað? Hann tekur sígarettupakka úr vasanum, úr honum eina sígarettu og kveikir sér í, brettir upp kragann á frakkanum og gengur eins rösklega og fjörugrjótið leyfir. Hann hugsar með sér að vel hefði getað verið selur þar í sjónum, þótt sá skeggjaði hafi aldrei séð slíkan þar. Líka að grunur þess skeggjaða, eða konunnar hans, hafi verið réttur fjandinn hafi það - hann var í öllu falli að velta því fyrir sér að drepa sig þar í fjöruborðinu.

Sunday, March 6, 2011

Ekki nóg fönk

Ekki nóg fönk

Saturday, March 5, 2011

Síðunni hefur borist bréf:

Sæl veriði
Hvernig er það með þessi djöfuls tígrisdýr, á ekkert að fara að reyna að fanga þau?
Kv.,
Einn áhyggjufullur í austurbænum

Síðunni hefur borist bréf:

Sæl og blessuð,

Mikið finnst mér það ósmekklegt hvernig sumt fólk talar um þessi tígrisdýr sem ganga laus í borginni, eins og þetta séu bara einhver meindýr sem skjóta skuli á færi hvar sem til þeirra næst! Ég meina, ég geri mér grein fyrir því að þetta eru hættulegar skepnur, en gleymum því ekki að þær eru líka í bráðri útrýmingarhættur og flækjast hingað vestur eftir aðeins vegna þess að ónógt æti er fyrir þær á hálendinu.

Dýravinur

Síðunni hefur borist bréf:

Til þeirra sem málið snertir

Nú heyrir maður mikið skrafað um að skjóta eigi tígrana sem flæktust af hálendinu, drepa þá. Það verð ég nú að segja að mér finnst það alveg arfavitlaust. Vita menn ekki að hvarvetna annarsstaðar en hér er undir öllum kringumstæðum stranglega bannað að drepa þessar skepnur, sem hafa ekki unnið annað til saka nokkru sinni en að hafa ríkt veiðieðli og góða matarlyst? Það má sjálfsagt gera ráð fyrir að það komi fyrir einhversstaðar í barbaríi austur- og suðurlanda að skepnurnar séu skotnar, en aðeins þá og þar sem ekki er af fjárhagsástæðum hreinlega mögulegt að bregðast við hættunni af þeim með öðrum hætti. Slíkt þekkist þó ekki meðal efnaðri þjóða, þekkist ekki! Ég segi svei þeim blýantanögurum sem nenna ekki að vinna vinnuna sína en telja byssuna bestu lausnina á þessu snúna máli!

Hr. Misboðið

Síðunni hefur borist bréf:

Ágætu lesendur,
Það veit ég dável að skoðun mín í tígrisdýra-málinu er ekki vinsæl - ég vil að þau verði skotin hið fyrsta. Það má fólk vita að mér er engin unun af því að vita villtar skepnur drepnar bara til að drepa þær, en í þessu tilfelli væri það þó fjarri að ástæðulausu. Allar tölur frá nágrannalöndunum sína - og þessar tölur eru aðgengilegar á vefjum viðeigandi stofnana flestra þessara landa, nenni fólk yfirleitt að kynna sér málin - sína að lausaganga tígrisdýra í borgum er stórvarasöm. Nú svarar fólk sem er ósammála mér því vísast til í huganum að víst sé það svo og því neiti enginn en aðrar leiðir séu færar en dráp. Jú, vissulega eru þær það fræðilega, sem maður segir, en eins og aðstæðurnar eru núna eru þær þó ekki færar. Dýrin hafa þegar ráðist á fólk, drepið eitt skólabarn í Grafarvoginum eins og fólk veit, og það er aðeins spurning um hvenær en ekki hvort það gerist aftur. Hver verður næst fyrir barðinu á þeim? Ekki er hægt að tefja við að læðast varlega að dýrunum með dýran útbúnað og fanga þau, og fyrst ég nefni dýran útbúnað er rétt að ég spyrji hvort fólk yfirleitt geri sér grein fyrir því hvað lifandi föngun kæmi til með að kosta? Formúu! Og þar liggur hundurinn fyrst og fremst grafinn - einangrun og föngun er svo dýr að í árferði eins og því sem nú er, með efnahaginn míglekandi og á hliðinni, er óforsvaranleg að eyða stórféi í gæluverkefni. Um það hugsa elsku bestu dýravinirnir á Alþingi ekki, þegar þeir gjamma um mannúð í pontunni vondu. Þannig er það nú bara. Ég segi: Skjótum þau, hið fyrsta!

Kveðja,
Raunsæismaður

Thursday, March 3, 2011

Aðdáendaklúbbur

Í hádeginu í gær sátum við félagarnir á stofunni sem oftar í setustofunni og spjölluðum yfir mat (jamaíkönskum karrý-pottrétti með kjúklingi og kartöflum, og maísbrauði). Það er svo sem ekki í frásögur færandi, kjaftæði og þvættingur um daginn og veginn, nema fyrir það að einn samstarfsmaður minn hafði á því orð að hann velti því fyrir sér að stofna aðdáendaklúbb. Við hlógum dálítið að þessum orðum hans hinir - hann, fullorðinn maðurinn, að stofna aðdáendaklúbb. Gerðum raunar ráð fyrir því, allir held ég að mér sé óhætt að segja, að hann væri að gera að gamni sínu, grínast. Hann tók háðsglósunum ekki illa, en stóð þó fastur á sínu og þvertók fyrir það að vera að grínast - hann þvert á móti væri raunverulega að velta því fyrir sér að stofna aðdáendaklúbb. Aðdáendaklúbb ameríska grínistans og leikkonunnar Aubrey Plaza nánar tiltekið. Við hlógum enn frekar að því - hann, fullorðinn maðurinn, að stofna aðdáendaklúbb einhverrar Hollywood-dömu. Kornungrar í ofanálag, stelpuskjátu. Áfram hlógum við dálítið. En við gátum reyndar allir verið sammála um það að þessi kona, ,,stelpuskjáta" eins og ég kalla hana að ofan og er viss um að einhver okkar gerði einhvern tímann í téðum samræðum, er efni í meiriháttar stjörnu. Hún er hæfileikarík, um það er engin spurning. Altént. Spjallið hvarf síðan einhvern veginn burt frá þessum spekúlasjónum, og að einhverju öðru kjaftæði og þvættingi um daginn og veginn. Í endurliti finnst mér hugmyndin alls ekki svo hlægileg. Alveg prýðileg raunar. Við þyrftum ekki að safna plakötum eða límmiðum eða þvíumlíku, bara njóta verka hennar saman, ræða þau og kannske fá okkur bjór. Af hverju ættu fullorðnir menn, sem bera að einhverju leyti þroskaðra skynbragð á afþreyingu og listir en börnin sem þó er alla jafna fremur umborið að gangist upp í dýrkun á hverju sem vera kann, ekki að njóta þeirra af sömu ákefð og ástríðu?