Friday, October 22, 2010

Árni Bergmann
eyrnamerg fann
en gengur samt enn á fótlaga skóm.

Monday, October 18, 2010

Á einum stofuveggnum heima hjá mér - raunar hér í næsta herbergi - hangir innrömmuð stór andlitsmynd af sjálfum mér. Ljósmynd, ekki málverk, og í lit. Sumir sem hingað koma í fyrsta sinn hafa orð á því að þeim finnist það fyndið, að ég hafi þessa stóru mynd af sjálfum mér í stofunni, aðrir að þeim finnist það skrítið, en aðeins þeir frökkustu - fleiri hugsa það með sjálfum sér þykist ég vita. Eflaust er líka talað um það úti í bæ, að ég sé svoddan sjálfsdýrkandi og stórmennskubrjálæðingur og furðufugl og ég veit ekki hvað. Það er rangt, allt saman; staðreyndin er sú að mér finnst myndin góð fyrir sjálfstraustið, sem fjarri er ofvaxið og fremur hið gagnstæða - ótrúlegt en satt.
Here's a fun little fact for all my non-Icelandic speaking fans: in Icelandic the squid is called 'smokkfiskur', which literally translates as condom fish; smokk=condom, fiskur=fish. Crazy, right? Still, sort of makes sense, when you think about it. Perhaps the name of the birth control comes from the shape of the fish, and not the other way around; or perhaps the 'smokk'-part is descriptive for a shape, and both the fish and the penis rubber tube take their names from it. I don't know, and don't care enough to research it- fuck, I won't even bother to google it. If you on the other hand do, please keep it to yourself, I really don't give a rats ass. Þú skilur alveg íslensku, ekki satt? Þú ert alls enginn, ekki satt?

Friday, October 15, 2010

Ágætur kunningi minn, geislafræðingur á Landsspítalanum, sagði mér nýlega í trúnaði að hann ætti erfitt með að gera það upp við sig hvort hann héldi með Davíði eða Jóni Ásgeiri. Mér fannst hann óbeint vera að spyrja mig ráða, ráða sem ég kærði mig ekki um að veita. Því muldraði ég eitthvað um að hann yrði bara að kanna málið betur, frá öllum hliðum, lesa sér til og mynda sér skoðun. Hann yrði að mynda sér skoðun. Taka upplýsta ákvörðun og afstöðu. Hann svaraði tillögu minni engu en kláraði kaffið sitt og borgaði, og skutlaði mér síðan heim. Ég hef ekki heyrt í honum eftir þetta og veit ekki hvort hann hefur tekið afstöðu.

Thursday, October 14, 2010

Ekki meira schnitzel fyrir mig, nei takk.

Wednesday, October 13, 2010

Á Íslandi er starfandi einn traustur og áreiðanlegur fjölmiðill, sá heitir N4, og á Íslandi starfar einn fréttamaður af heilindum í þágu sannleikans, sá heitir Hilda Jana Gísladóttir.
Maðurinn- mannskepnan er um margt ógurlega gölluð. En þeir hlutir eru þó til sem hún hefur afrekað og eru kraftaverki líkastir.

Fátt jafnast á við góða eldhúsinnréttingu, varla nokkuð á við haganlega falinn ísskáp.

Ég horfi yfir nýuppgert eldhúsið mitt og get ekki orða bundist, vitna í skáldið Martin: Viva la Vida - hvar í ósköpunum ætli ég geymi mjólkina og ostinn?

Tuesday, October 12, 2010

Á sunnudaginn var fór ég í barnaafmæli hjá bróður mínum. Hann átti ekki afmæli, og er enda orðinn fullorðinn, heldur dóttir hans. Afmælið var frekar leiðinlegt, en þó þótti mér nokkuð gaman að hitta gamlan félaga úr menntaskóla sem var þar með ungan son sinn. Sá æfir tae kwon-do með bróðurdóttur minni - strákurinn það er, ekki félaginn. Félaginn er merkilegur fýr; akfeitur og ættaður að vestan og firna óhamingjusamur, eða nóg nöldraði hann altént. Hann sagði mér að það eina sem hann hefði fengist við um ævina - starfað - og fallið vel að heitið gæti, væri að hanna eyðublöð. Eyðublöð fyrir allt mögulegt. Bilið á milli kassanna, reitanna, sagði hann, var hans sérsvið; fáir ef nokkrir stóðu honum á sporði þegar kom að því að stýra bili á milli reita á eyðublöðum. Þegar slíkt væri vel gert yrðu til fallegir listar á blöðin, eins konar rammar. Sjálfur er ég hrifinn af vel hönnuðum eyðublöðum, án prjáls og tilgerðar og sem merkjanlega eru vandlega úthugsuð og útfærð. Vegna þess sé ég þegar ég leiði að því hugann að það sem félaginn segir um eyðublöðin er hárrétt, bilin skipta gríðarmiklu.
Hey, halló! Þú étur eintóma fökken hamborgara og pítsur, kartöfluflögur og kók og bjór, en lest Auden og Guðrúni Evu og- og ég veit ekki hvað! Þú verður að hætta, verður að hætta þessu, þetta meikar engan sens. Hvað ertu maður, hvað í fjandanum? Hvað þykistu vera að gera með þessa bók- ókei fokk, þetta sleppur, fökken Palahniuk sleppur. Samt- Hættu þessum fíflaskap, ekki vera svona fáviti! Og hvers konar maður fílar ekki sushi? Mér er sama þó þér finnist þarinn ógeðslega vondur og hrár fiskur ekkert spes, hvað er fökken að þér? Ég bara- Gyrðir Elíasson?! Hvað í fjandanum? Ekki meiri franskar. Ekki fleiri bókir.

Sunday, October 10, 2010

Hver er Egill Helgason?

Friday, October 8, 2010

Úti á Pollinum lónar rússnesk freigáta. Hún virðist vera nýleg eða nýuppgerð, er nokkuð löng en ekki ýkja háreist. Steingrátt skipið ber við vesturhlíð Vaðlaheiðarinnar, við birkikjarr og lyngfláka en ekki byggðina þar austanmegin sem öll liggur þónokkru ofar í hlíðinni. Sjóliðunum er ekki hleypt í land og í svæðistfréttunum kvartar kráareigandi yfir því að verða af viðskiptum.

Friday, October 1, 2010

Ég hef ekki þolinmæði til að reyna að skrifa fallega texta með lykkjum og beygjum og beinum köflum. Líklega færi mér best að skrifa skýrslur um hugmyndir, mínar ef ég nennti.