Sunday, September 26, 2010

Ég geng nær undantekningarlaust í nærbuxum og man ekki eftir neinu tilviki þar sem það hefur komið sér illa fyrir mig. Nokkrum sinnum hef ég sofið brókarlaus, allsber það er að segja - ég sef ekki í bol nema sérlega kalt sé af einhverjum ástæðum í svefnherberginu. Þegar svo ber við - að sé kalt það er að segja, ekki að ég sofi brókarlaus - hef ég jafnvel sofið í sokkum, sem mér finnst annars mjög óþægilegt. Fyrir nokkrum árum voru mér gefin lagleg náttföt, úr bláteinóttri bómull, en ég notaði þau ekki nema þegar ég var veikur og týndi þeim síðan. Mér þykir það miður nú þegar ég leiði að því hugann, en það hefur ekki plagað mig hingað til. Ég hef ekki orðið ýkja oft veikur þessi síðustu ár.

Eftirfarandi er tekið af Wikipedíu, síðu um brókarleysi:

Benefits often cited for men include allowing the testicles to more freely move closer to (for warmth) and away from the body (to cool down), allowing them to remain at a more constant and healthy temperature. For some with sensitive skin, penile irritation can result from highly restrictive underwear, exacerbated by erections. (On the other hand, if the outer clothing is somewhat rough or abrasive, this can cause similarly undesirable results.)

http://en.wikipedia.org/wiki/Going_commando

Friday, September 24, 2010

Ég las engin ljóð í gærkvöld.

Tuesday, September 21, 2010

Þegar ég ætlaði í sturtu í morgun sá ég mér til mikillar armæðu að oturinn sem ég held í þvottahúsinu hafði rutt þurrkaranum niður af þvottavélinni. Í fallinu hafi eitt horn þurrkarans í ofanálag slegist í klósettið og brotið stórt stykki úr skálinni, svo vatn lagði um allt gólfið. Þetta er vond leið til að byrja daginn og mér var skapi næst að gefa otrinum ekkert að éta, svo var ég gramur. Þetta var enda ekki í fyrsta sinn sem hann tekur upp á einhverju þessu líku, þó aldrei hafi hann valdið þvílíkum óskunda. Auk þess skil ég ekki hvernig á því stendur að ég vaknaði ekki við hamaganginn; það er nærri því eins og hann hafi unnið að þessum ósköpum að yfirlögðu ráði og beitt sérstakri lagni við verkið. En þegar ég hafði tekið til í þvottahúsinu, komið löskuðum þurrkaranum á sinn stað, tekið vatnið af klósettinu og og þurrkað mestu bleytuna af gólfinu var mér þó runnin sárasta reiðin svo ég sá að mér og sótti mat í skál otursins. Þegar ég lagði hana fyrir hann sagði hann mér með háði og kaldri fyrirlitningu í röddinni að mér hefði yfirsést blettur við tiltektina, og benti með stuttri höfuðhreyfingu í átt að litlum polli í horninu við klósettið. Þá var mér nóg boðið svo ég strunsaði út og skellti á eftir mér þvottahúshurðinni, en í gegnum hana heyrði ég þurran hlátur otursins greinilega í nokkra stund á eftir. Eins og hann getur verið skemmtilegur og jafnvel indæll - áhugaverður viðmælandi og djúphugulli en maður skyldi af rófunni ætla - getur hann líka verið ógurlegur drullusokkur. Ég sé það nú að svona getur þetta ekki gengið, eins og ég sagði þá hefur hann áður gert ýmislegt viðlíka; það eru ekki liðnar tvær vikur síðan hann nagaði í sundur slönguna í sturtuhausinn og reglulega spænir hann þvottaduft og sápur um allt þvottahúsið. Eftir kvöldmat í kvöld sendi ég björninn inn, ég sé ekki hvað annað ég get gert.

Monday, September 20, 2010

Djöfull hjólar hann hratt þessi.

Ein lítil ástarsaga

Ónefndur vinur minn sagði mér nýlega í trúnaði að hann væri ástfanginn af Moggabloggara nokkrum. Alveg yfir sig. Vinurinn sagði að sér þættu skrif bloggarans svo einlæg, andrík og ástríðufull, greinarmerkjasetning hans svo óvenju kraftmikil, og val hans á leturgerðum bera vott um góðan smekk og næmt auga fyrir veigamiklum smáatriðum. Vinurinn sagði mér í framhaldinu að hann svífi um á bleiku skýi, og láti sig dreyma um að skrifa athugasemd við færslu bloggarans eða jafnvel að senda honum tölvupóst. Ég skil hvernig vini mínum líður og vona að þessi litla ástarsaga endi vel.

Sunday, September 19, 2010

Ég er alfarið á móti mannréttindum. Í fullri alvöru.

Wednesday, September 15, 2010

Ég nenni ekki að lesa núna, ekki láta mig.

Tuesday, September 14, 2010

Óður til pepperónís

Þegar konan sem ég bý með fær sér pítsu án pepperónís fer ég þegjandi inn á bað og sker mig í tippið með rakvélarblaði.

Monday, September 13, 2010

Á fjöllum

Eitthvað það alerfiðasta sem ég hef tekist á hendur um dagana er að ganga á skíðum norðaustur yfir hálendið, um Ódáðahraun og Sprengisand, snemma vors fyrir nokkrum árum. Líkamlega tók ferðin mjög á, en ekki síður andlega - og þetta tvennt verkaði af skilvirkni saman til að magna áhrif hvort annars. Líkamlegur lúi tók á sálina, og depurð og drungi drógu úr líkamanum afl. Kuldi og vosbúð nístu. Biksvart myrkrið kæfði. Erfiðast alls var að liggja andvaka um nætur og heyra úlfana snuðra við tjaldið, hlusta á þungan andadrátt þeirra og lágt og varfærnislegt brakið í snjónum. Haldandi þéttingsfast um riffilinn, sveittur í lófum og yfirspenntur í skrokknum öllum, úrvinda og ringlaður af þreytu og kvíða. Mikið var ég í lok þeirrar ferðar feginn að sjá yfir og niður í Eyjafjörðinn, og mikið var líka niðurgangan ánægjuleg.

Thursday, September 9, 2010

Þegar ég byrjaði að reykja hafði ég aldrei bragðað barnakjöt.

Sambúð

Vísast ætti ég ekkert að vera að kvarta, ég hef það svo sem fínt. En ef ég á að segja alveg eins og er þá er mér heldur farið að gremjast það hversu kyrkislangan undir sófanum er orðin frek á mýsnar í íbúðinni. Í sumar hefur Helena ítrekað orðið að fara svöng í háttinn, eða hálfsvöng eftir ávaxtaát, þegar ég hef enga mús fundið handa henni. Það skal enginn telja mér trú um að mýsnar hafi einfaldlega flutt sig um set, ó nei, ekki eins og ég geng um íbúðina og þríf, eða þríf ekki. Að auki hefur slangan vaxið mjög - þótt við sjáum sjaldnast af henni nema í mesta lagi bláenda halans undan sófanum, finnum við hana bylta sér þegar við sitjum fyrir framan sjónvarpið á kvöldin. Helena með appelsínubáta eða nokkur vínber, en ég hundfúll. Ég hef reynt að ræða þetta við skriðdýrið en það verður engu tauti við það komið, mér mætir bara tómt, lóðrétt augnaráð; slanga er ekki dónaleg, en einfaldlega skilur ekki mannamál. En sem ég segi, ég ætti svo sem ekkert að vera að kvarta. Lena þrífst ágætlega á ávöxtum. Það er bara prinsippið, mér var kennt að svona hagaði maður sér ekki - manneskja eða snákur.

Wednesday, September 8, 2010

Nestlé

Nestlé át fullt af afrískum börnum, og Quality Streeti og Gerberi og einhverju drasli sem er fáránlegt combó, og skeit kakómalti í gulum plastdunkum. Ég hrærði kakómalti í mjólk sem ég drakk, og át með henni brauð með sultu. Hafði það fínt, svellkaldur og ropandi og rekandi við. Þó hef ég aldrei verið sérlega hrifinn af heimahrærðri kakómjólk - hún var bara skárri þannig en straight up. Nestlé át helling af afrískum smákrökkum, og allskonar misómerkilegu drasli sem maður sér í hillum verslana og á heimilum og ég veit ekki hvar, og skeit Gerberi í pínulitlar krukkur. Sumar stelpurnar átu svoleiðis í menntó, ekki ég. Reisið af mér styttu.

Thursday, September 2, 2010

Afskriftir

Ég er ekkert frík þó ég fíli konur með barta. Bartar eru ekki skegg, segi ég, og jafnvel þó ég fílaði konur með skegg - ekki barta heldur gróf hár úti á miðjum kinnum, í kringum munninn, á hökunni og niður á háls - þá væri ég ekkert frík. Fegurðarmat mitt væri bara um þetta grundvallaratriði ólíkt fegurðarmati flestra annarra gagnkynhneigðra karla - sem þó hafa um margt mjög ólíka sýn á kvenlega fegurð, sín á milli. En bartar eru ekki skegg, nema þeir nái niður að brún kjálkans eða teygi sig út á kinnina, að lágmarki miðja vegu á milli eyra og nefs. Fínleiki hárs skiptir hér líka miklu.

Wednesday, September 1, 2010

Glæpasögur

Axel er ekki einn þessara þunglyndu, drykkfelldu eða tilfinningalega heftu spæjara sem skandinavískir reyfarahöfundar skrifa um. Persónulega finnst mér honum frekar svipa til Fandoríns í bókum rússneska höfundarins Bórisar Akúníns, þó vitanlega gangi Axel hvorki með hatt né við staf. Það er eitthvað, eitthvað sem ég á erfitt með að festa fingur á. Hver er þessi Axel?